Hér er stofnskráin og söfnunar- sýningar- fræðslu og rannsóknarstefnan fyrir Fuglasafn Sigurgeirs á PDF formi.

Stofnskrá
Söfnunarstefna

 

 

Stofnskrá

Fyrir   Fuglasafn Sigurgeirs ses.

 

I. Nafn, heimili og tilgangur

1.gr.

Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Fuglasafn Sigurgeirs ses.

2. gr.
Heimilisfang Fuglasafns Sigurgeirs ses.  er að Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn.

3. gr.
Tilgangur Fuglasafn Sigurgeirs er að sýna, safna, varðveita, skrá og rannsaka fugla. Einnig að sýna bátin Sleypni og hvernig menn nýttu Mývatn sér til framdráttar.
Rannsóknir á fuglum og eggjum verða að mestu gerðar í samstarfi við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn. Stefnt að því að skrá sögu Sleypnis. Nýting Mývetninga á Mývatni verður skoðuð með tilliti til veiða, dún og eggjatöku.
Safnið skal vera sett upp á áhugaverðan og aðgengilegan hátt fyrir almenning. Safnið skal starfa eftir mótaðri söfnunar- og sýningarstefnu sem skal miða að því að efla þekkingu, skilning og áhuga almennigns á fuglum, fuglalífi og hvernig Mývetningar nýttu Mývatn. Söfnunar- og sýningarstefnan skal endurskoðuð á 4 ára fresti.
Safnmuni skal skrá eftir viðurkenndri aðferð og varðveita og forverja eftir bestu getu.
Fuglasafn Sigurgeirs skal að öðru leyti starfa samkvæmt ákvæðum safnalaga nr.106/2001 og þjóðminjalaga nr.107/2001 og reglugerðum og reglum sem grundvallast á þeim lögum.

II. Stofnendur, stofnfé og tekjur safnsins

4.gr.
Stofnendur Fuglasafns Sigurgeirs eru:
Axel Stefánsson, 2910572849, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn
Álfdís Stefánsdóttir, 0403663189, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn
Pétur Bjarni Gíslason, 080462-7519, Skútahraun 8, 660 Mývatn
Sigríður Stefánsdóttir, 0605597249, Skútahraun 8, 660 Mývatn
Stefanía Stefánsdóttir, 2708602069, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn


5.gr.
Stofnfé Fuglasafns Sigurgeirs er kr. 2.000.000. Stofnfé skiptist jafnt á alla stofnendur, kr. 400.000 á mann.
Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.
Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.

6.gr.
Tekjur  Fuglasafns Sigurgeirs skulu vera:
Aðgangseyrir
Styrkir, gjafir eða önnur framlög sem stofnuninni kunna að berast.
Aðrar tekjur

III. Stjórn

7.gr.
Stjórn Fuglasafns Sigurgeirs skal skipuð fimm mönnum og þremur til vara. Stjórnin skal kosin til fjögurra ára í senn og kýs fráfarandi stjórn nýja stjórn. Tveir stjórnendur skulu þó jafnan tilnefndir af stofnendum og að þeim látnum, lögerfingjum þeirra.  Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Varamenn sitja fundi í fjarveru stjórnarmanna.
Fyrsta stjórn Fuglasafns Sigurgeirs ses. skal kosin á stofnfundi.
Stjórnin skiptir með sér verkum og skal hún kjósa formann, varaformann, ritara og gjaldkera. 
Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi.  Undirskriftir allra stjórnarmanna skuldbinda stofnunina.  Stjórn Fuglasafns Sigurgeirs getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.
Stjórn safnsins afgreiðir starfs- og fjárhagsáætlun fyrir hvert ár og fylgist með framkvæmd hennar.
Stjórnin sinnir leiðsögu- og eftirlitshlutverki fyrir safnið.
Stjórn hefur yfirumsjón með því að safnið starfi samkvæmt skipulagsskrá og almennum lögum. Það er hlutverk sérhvers stjórnarmanns að tryggja velferð safnsins, árangursríka starfsemi þess og gæta hagsmuna þess gagnvart þriðja aðila.
Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla  um málið, sé þess nokkur kostur. 


 

8. gr.
Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda.  Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar.  Sama rétt á framkvæmdastjóri.  Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála.  Halda skal fundargerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum. Framkvæmdastjóri situr fundi og hefur þar tillögurétt og málfrelsi.

IV. Framkvæmdastjóri

9. gr.
Stjórn er heimilt að ráða  framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri starfar samkvæmt starfslýsingu sem stjórn safnsins samþykkir.
Framkvæmdarstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri safnsins í umboði stjórnar og framkvæmd þeirrar stefnu sem mótuð hefur verið. 
Framkvæmdastjóri fæður annað starfsfólk að fengnu samþykki stjórnar og í samræmi við samþykkta starfs- og fjárhagsáætlun.
Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

V. Reikningur og endurskoðun

10. gr.
Stjórn Fuglasafns Sigurgeirs skal velja endurskoðenda eða skoðunarmenn til að endurskoða reikninga safnsins fyrir hvert starfsár.  Niðurstöðurnar skal leggja fyrir stjórn. Endurskoðendur/skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

11. gr.
Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. 
Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 30. mars ár hvert.
Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, skal senda ársreikningaskrá ársreikning eða samstæðureikning safnsins ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðenda/skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær ársreikningur var samþykktur.

12. gr.
Hagnaði sem verður af starfsemi stofnunarinnar skal valið til þeirra verkefna er greinir í 3. gr. samþykkta þessara.  Þó er stjórn hennar  heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.
Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

VI. Rekstur

13. gr.
Í húsnæði Fuglasafns Sigurgeirs skulu jafnan vera grunnsýningar sem gefa góða innsýn í þá þætti í sögunni sem lúta að fuglum og nýtingu Mývatns.  Þá getur safnið gert einstökum þáttum skil á sérsýningum, bæði í safnhúsinu sjálfu og annars staðar þar sem aðstæður leyfa og stjórn safnsins ákveður.

14. gr.
Fuglasafn Sigurgeirs skal hafa sýningarsali opna á auglýstum sýningartímum í a.m.k. þrjá mánuði á ári.  Það skal rækja fræðsluhlutverk sitt við almenning sem og erlenda gesti m.a. með áhugaverðum sýningum og vönduðu útgáfustarfi.  Safnið skal leitast við að höfða til og þjóna breiðum hópi safngesta og skal leitast við að hafa starfsemi sína aðgengilega öllum.  Haft skal gott eftirlit með aðsókn og aðsóknarþróun og leitast við að hámarka aðsókn.   Safnið skal sinna fræðsluhlutverki til skóla á starfssvæði sínu sérstaklega og skal hafa samvinnu við fræðsluyfirvöld, ferðaþjónustu og aðra aðila eftir því sem við á.

15. gr. 
Framkvæmdastjóra er heimilt að lána gripi tímabundið út úr safninu til sýninga innanlands með samþykki stjórnar safnsins.  Hvorki má gefa né selja þá muni sem safnið hefur eignast nema með samþykki stjórnar.  Ekki er safninu heimilt að veita viðtöku munum sem sérstakar kvaðir fylgja, nema stjórnin samþykki að gjöfin hafi sérstaka þýðingu fyrir safnið.

17. gr.
Samstarf safnsins við önnur söfn innanlands sem utan eða aðrar viðurkenndar stofnanir um málefni sem varða safnið er heimilt svo framarlega sem stjórn styður samstarfið og hagræðing hlýst af því


VII. Breytingar á stofnskrá

18. gr.
Heimilt er að breyta samþykktum Fuglasafns Sigurgeirs en til þess þarf samþykki allra stjórnarmanna safnsins á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili. Tillögur um breytingar á stofnskrá skal senda til sjálfseignarstofnunarskrá til staðfestingar.

19. gr.
Með tillögu um slit og skipti á safninu skal fara eins og með breytingar á skipulagsskrá þessari.  Þarf atkvæði stofnenda  sem ráða minnst 2/3 hlutum atkvæða safnsins til að ákvörðun um slit sé gild.  Við slit skulu safngripir renna endurgjaldslaust til annara safna í Mývatnssveit, ef það gengur ekki þá í nágrenni Mývatnssveitar, ef það gengur ekki þá til safna sem stjórn ákveður.  Öðrum eignum skal stjórnin ráðstafa til stofnenda safnsins í samræmi við stofnfé þeirra og framlög.

VIII. Slit á samstarfi eða niðurlögn safns

20. gr.
Ef aðili að samstarfi um rekstur safnsins ákveður að ganga úr samstarfinu þarf það að tilkynnast með minnst hálfs árs fyrirvara.  Í kjölfarið skal endurskoða alla starfsemi og rekstur safnsins.  Við úrsögn úr samstarfinu missir eigandi allan rétt sinn til safnsins.  Eigendur eiga ekki tilkall til eigna eða muna safnsins, enda er safnið sameign eignaraðila og safngripir óskiptir og skráðir sameiginlega.

21. gr.
Ef eigendur safnsins ákveða að leggja safnið niður skal skipuð nefnd til að fjalla um niðurlögnina og skipi hver eigandi einn aðila í nefndina.  Nefndin skal, í samráði við viðeigandi höfuðsafn, leggja fyrir eigendur tillögu um ráðstöfun safngripa og annarra eigna safnsins.

IX.  Ýmis ákvæði

22. gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

23. gr. 
Skipulagsskrá þessi tekur gildi þegar hún hefur verið undirrituð af öllum stofnendum hennar.

 

Samþykkt á fundi Fuglasafns Sigurgeirs ses. í Mývatnssveit 6. september  2007.

 

 

Stofnskrá
Söfnunarstefna

 

Söfnunar- sýningar- fræðslu- og rannsóknarstefna


EFNISYFIRLIT

1. Kynning
1.1. Formáli
1.2. Saga Fuglasafns Sigurgeirs
1.3. Stjórnskipulag
2. Söfnunarstefna
2.1. Fuglar
2.2. Egg
2.3. Bátaskýli
3. Aðföng, forvarsla, geymsla og grisjun
3.1. Aðföng
3.2. Forvarsla
3.3. Skráning
3.4. Geymsla
3.5. Lán
3.6. Grisjun
4. Sýningarstefna
4.1. Heimsókn á safn
4.2. Sýningar
5. Fræðslustefna.
5.1. Samstarf við skóla
5.2. Miðlun
5.3. Sýningar
5.4. Samstarf
6. Rannsóknarstefna
6.1. Talning álfta á Neslandavík
6.2. Fylgjast með varpi í hólmum í Mýatni
6.3. Varp Flórgoða
6.4. Dún og eggjataka
6.5. Sleypnir
6.6. Nýting Mývatns
7. Lokaorð


 

1. Kynning

1.1. Formáli
Fuglasafn Sigurgeirs er stofnað utan um safn Sigurgeirs Stefánssonar, Ytri-Neslöndum Mývatnssveit, á eggjum og uppstoppuðum fuglum. Sigurgeir var mikill fuglaáhugamaður og var búinn að safna um 320 uppstoppuðum fuglum og eggjum undan öllum Íslneskum fuglum.
Hann fórst í slysi í Mývatni árið 1999, eftir það fóru aðstendur hans að byggja hús utan um þessa gripi og koma á fót alvöru safni. Strax í upphafi var einnig ákveðið að byggja utan um Sleypni, bát Jóns Sigrtyggssonar frá Syðri Neslöndum.

1.2. Saga Fuglasafns Sigurgeirs

1.3. Stjórnskipulag
Fuglasafnið er sjálfseignarstofnun með 5 manna stjórn sem kosin er til 4 ára í senn.
Til að byrja með er forstöðumaður í 50% starfi og safnvörður í 50% starfi auk sumarstarfsmanna.


2. Söfnunarstefna

Söfnunarsvæði Fuglasafns Sigurgeirs er allt landið og miðin með áherslu á Mývatnssveit. Gott og gagnvirkt samráð skal hafa við önnur söfn í fjórðungnum sem og á landinu öllu. Hér á eftir eru söfnunarflokkar safnsins taldir upp.

2.1. Fuglar
Markmiðið er að safna öllum Íslenskum fuglum og flækingum með sérstaka áherslu á endur í Mývatnssveit. Sérstakir fuglar erlendisfá verða einnig til sýnis.

2.2. Egg
Markmiðið er að safna eggjum undan öllum Íslenskum fuglum og flækingum. Sérstök egg erlendis frá verða einnig til sýnis. Leitast við að fá sem flest afbrygði af öllum eggjum.

2.3. Bátaskýli
Bátur Jóns Sigtryggssonar frá Syðri Neslöndum verður til sýnis en hann er eitt fyrsta samgöngutæki Mývetninga. Einnig verður gerð grein fyrir nýtingu manna á Mývatni t.d. sýnd hvernig menn stunduðu veiðar undir ís, fiskuðu á dorg og nýttu eggin.


3. Aðföng, forvarsla, geymsla og grisjun

Söfnun náttúru- og menningarminja er ábyrgðarmikið hlutverk sem Fuglasafn Sigurgeirs leitast við að rækja sem best. Til grundvallar allri meðferð muna, aðföngum þeirra og grisjun skal fylgja siðareglum Alþjóðaráðs safna - ICOM (International Council of Museums). Nærgætni og virðing fyrir safnmunum skal höfð í fyrirrúmi í öllu safnastarfi sem og fyrir fyrri eigendum þeirra.

3.1. Aðföng
Tekið er á móti munum og það svo metið hvort þeir falli að söfnunarstefnu safnsins og séu sýningarhæfir. Forðast skal að taka við munum er safnið hefur ekki möguleika á að skrá, varðveita, geyma eða sýna við viðunandi aðstæður. Ekki skal að taka við munum sem á einhvern hátt fylgja sérstök skilyrði nema í algerum undantekningartilvikum. Ef svo er gert skal skýrt tekið fram í munaskrá ef einhver skilyrði fylgja safngripnum.

3.2. Forvarsla
Enn sem komið er hefur Fuglasafn Sigurgeirs ekki haft sérmenntað starfsfólk í forvörslu á sínum snærum. Því skal unnið markvisst að menntun starfsfólks með það í huga og leita til sérfræðinga þegar við á.

3.3. Skráning
Hver safngripur er skráður í tölvuforritinu Excel. Seint verður ítrekað nóg mikilvægi þess að skráning sé ítarleg og faglega unnin.

3.4. Geymsla
Geymslupláss Fuglasafns Sigurgeirs er að mörgu leyti gott en sífellt skal endurskoða rýmið með tilliti til nauðsynlegra forvörsluskilyrða.

3.5. Lán
Fuglasafn Sigurgeirs leitast við að vera í góðu samstarfi við þá sem þess óska um lán á safngripum. Aðbúnaður og meðferð umrædds munar skal þó ætíð höfð í fyrirrúmi.
Fuglasafn Sigurgeirs getur einnig óskað eftir munum að láni, bæði frá öðrum söfnum sem og stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum. Mikilvægt er að hafa samstarf öllum aðilum til hagsbóta.

3.6. Grisjun
Skýrt afmörkuð söfnunarstefna sem fylgt er vel eftir gerir það að verkum að grisjun eða förgun safngripa verður óþörf. Meginregla í safnastarfi er sú að ef tekið hefur verið við grip til varðveislu þá skal hann verða hluti af safnkosti viðkomandi safns um ókomna tíð.


4. Sýningarstefna

4.1. Heimsókn á safn
Starfsemi safna er greinilegust og aðgengilegust almenningi með sýningum þess. Heimsókn á safn felur í langflestum tilfellum í sér að gesturinn skoðar sýningar þær sem boðið er upp á og mikilvægt er að þær séu sem best úr garði gerðar. Söfn eru í samkeppni við aðra dægradvöl sem í boði er, en auk skemmtunar eru jafnframt gerðar kröfur um að safnaheimsókn fræði gestinn. Síðustu ár hefur jafnframt verið tilhneiging til að reyna að höfða til reynsluheims gesta þannig að tilfinningaleg upplifun eigi sér stað.
Ekki er hægt að ganga út frá einsleitum hópi þegar talað er um safngesti – íslenskir og erlendir ferðamenn, mismunandi aldurshópar, nemendur á öllum skólastigum, fræðimenn, eldri borgarar og vinnustaðahópar eru aðeins lítill hluti þeirrar margbrotnu flóru gesta sem söfn fá í heimsókn til sín og reyna að höfða til.
Vandaverk er að setja upp sýningu/-ar sem höfða til allra án þess að þær verði útþynntar og missi marks. Ekki skal hikað við að leita til fagfólks þegar kemur að sýningum enda fjöldamargir og mismunandi þættir sem hafa verður í huga. Má þar nefna sýningarhönnun, fræðslugildi, skemmtigildi, forvörslu og uppsetningu viðkvæmra safnmuna, söguleg nálgun og aðgengi svo fátt eitt sé nefnt.

4.2. Sýningar
Fastasýning – Skal endurspegla helstu söfnunarflokka safnsins hverju sinni. Hluti hennar skal vera útskiptanlegur þannig að viss endurnýjun verði til staðar. Unnið verði að því að koma á samstarfi við Náttúrufræðistofnun um lán á munum í umsjá þess sem sýndir yrðu á fastasýningunni í vissan tíma og skipt um reglulega.
Mikilvægt er að á fastasýningunni verði jafnvægi náð milli fræðandi þátta sem og atriða sem stuðlað geta að tilfinningalegri upplifun safngesta.

Nemendasýningar – Stefnt að góðu samstarfi við grunn- og framhaldsskóla og hafa nokkrar nemendasýningar og fræðslu í tengslum við vinnu nemenda. Gott er að miða við að árleg nemendasýning verði sett upp.

Sérsýningar – Stefnt að því að hafa möguleika á því að setja upp sérsýningar og fyrirlestra.


5. Fræðslustefna

Lengi framan af var fræðsluhlutverkið talið eitt helsta verkefni safna. Áttu þau að geta uppfrætt og upplýst hinn almenna (ómenntaða) fullorðna einstakling sem síðar stuðlaði að því að gera hann að betri þegn í samfélaginu. Þetta hlutverk er ekki lengur eins yfirgnæfandi í starfsemi safna þótt enn sé keimur af því. Annar skilningur er lagður í hugtakið “fræðslu” og “menntun”. Skemmtimenntun (Edutainment) er hugtak sem hefur verið mjög mikið notað um söfn – þ.e. að þau hafi bæði skemmtunar- og fræðslugildi.
Nýjar stefnur og aukin þekking í kennslufræðum undirstrika það að fólk læri mun frekar ef það tengir upplifinuna við sinn eigin reynsluheim.
Einnig hefur verið bent á að gott sé að virkja skilningarvitin öll, sjón, heyrn, lykt og snertingu við fræðslu. Safnið skal leitast við að koma til móts við þetta.
Mikilvægt er að hafa í huga að fræðslustefna tekur ekki bara til skólafólks heldur í raun allra þeirra sem vilja fræðast á söfnum.

5.1. Samstarf við skóla
Í aðalnámskrá hvers skólastigs fyrir sig eru söfn oft nefnd og gert ráð fyrir því að þau séu hluti af lifandi og daglegu skólastarfi. Samfélagsgreinar, upplýsingamennt, listgreinar og íslenska, svo eitthvað séu nefnt, tiltaka sérstaklega hlutverk safnanna í því að ná markmiðum námsgreinarinnar. Fuglasafn Sigurgeirs leggur metnað í að auka og bæta samstarf við öll skólastig og þróa, í samvinnu við kennara og nemendur, verkefni sem hæfa bæði viðfangsefni, aldri og áhuga nemenda.

5.2. Miðlun
Ný tækni hefur gjörbreytt möguleikum safna á að miðla efni sínu og gera það aðgengilegt. Veraldarvefurinn er þar fremstur í flokki og lögð skal áhersla á að gera heimasíðu safnsins skemmtilega og fróðlega. Mun m.a. verða hægt að nálgast þar verkefni er tengjast úrvinnslu safnaheimsókna skólahópa.
Enn verður þó líka notast við gamlar og vel reyndar aðferðir og útgáfa á skýrslum og öðru efni safnsins í prentuðu formi mun ekki leggjast af.

5.3. Sýningar
Eins og áður segir verður lögð áhersla á við uppsetningu sýninga að fræðslugildi þeirra verði haft í fyrirrúmi. Þá er þó ekki verið eingöngu að tala um hina hefðbundnu fræðslu sem felur í sér miðlun upplýsinga með textum heldur miklu fremur með margs konar margmiðlun og því að höfða til mismunandi skilningarvita gestsins.

5.4. Samstarf
Fuglasafn Sigurgeirs leggur mikið upp úr góðu samstarfi við skóla, menningarstofnanir, einkaaðila og Náttúrufræðistofnun. Leitast verður við að miðla afrakstri verkefna á sem fjölbreyttastan máta.


6. Rannsóknarstefna

 

Rannsóknir á náttúru og lífríki verða aðalega stundaðar í samvinnu við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn og verður gerður samningur um þær. Aðrar rannsóknir munum við gera eftir bestu getu af eigin frumkvæði og reyna nýta okkur fagþekkingu sem fyrir er í hverjum málaflokki. Þessum rannsóknum verður reynt að sinna eftir efnum og mannskap.

6.1. Talning álfta á Neslandavík
Í samstaffi við Náttúrurannsóknarstöðina verða allar álftir taldar á Neslandavíkinni einu sinni í viku. Með því að gera þetta í langan tíma fást mikilvægar upplýsingar sem náttúrufræðingar ofl geti nýtt.

6.2. Fylgjast með varpi í hólmum í Mýatni
Skrá hvernig varp þróast í Ysthólma, Landhólma, Strók og Slútnesi. Til lengri tíma er fróðlegt að sjá hvort varp minnkar, eykst eða breytist.

6.3. Varp Flórgoða
Reyna skrá og fylgjast með varpi Flórgoða meðfram strönd Mývatns frá Grímsstöðum að Ytri Neslöndum.

6.4. Dún og eggjataka
Rannsóknir hafa verið gerðar á eggjatöku bænda í Vogum, Reynihlíð og Grímsstöðum langt aftur í tíman. Reynt að gera sambærilegar rannsóknir á bæjunum á Neslandartanganum. Einnig gerð athugun á dúntekju á sama svæði.

6.5. Sleypnir
Afla upplýsinga um Sleypni, smíði og sögu og skrá þetta.

6.6. Nýting Mývatns
Skrá hvernig bændur við Mývatn nýttu náttúruauðlindina Mývatn sér til framdráttar í lífsbaráttunni.


 

7. Lokaorð

Starfsemi Fuglasafns Sigurgeirs er mikilvæg nánasta samfélagi sínu eins og starfsemi safna iðulega er. Safnastefnu þessa skal hafa til hliðsjónar af starfi safnsins, bæði innra starfi sem og því sem sýnilegra er almenningi. Fagleg vinnubrögð og skýrt mörkuð stefna er vænlegust til góðs árangurs og áframhaldandi uppbyggingar safnsins. Þó munu álitamál ætíð koma upp sem og breytingar á samfélagi eða öðru sem gera það að verkum að endurskoðun og gagnrýn hugsun á safnastefnunni skal höfð í fyrirrúmi. Safnastefnuna skal endurskoða í síðasta lagi árið 2012.

 

Ágúst 2008
Pétur Bjarni Gíslason

 

Stofnskrá
Söfnunarstefna

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is