Fréttir af safninu frá árinu 2010
Til baka

24. desember 2010. Þá er bara komið að jólum, tíminn flýgur óðfluga áfram. Það var hann Arnór Jónsson frá Hólmavík sem var svo heppinn að fá flottan kíkir sendan frá Fuglasafninu og Ellingsen í aðalvinning í fuglaskoðunarleiknum, við óskum honum til hamingju.

Jólatraffíkin var frekar róleg hjá okkur, en þó mættu nokkrir og hlustuðu á höfunda lesa úr bókum sínum og höfðu gaman af. Tónleikar með Krossbandinu tókust vel og þeir fáu sem mættu skemmtu sér konunglega.

Við hjá Fuglasafni Sigurgeirs þökkum öllum gestum safnsins fyrir komuna og velunnurum þess fyrir hjálpina.

Gleðileg jól, gott og farsællt nýtt ár

 

05. desember 2010. Þá er sumarið búið og langt liðið á vetur, jólin meira segja á næsta leiti. Sumarið var þokkalegt hjá okkur í safninu, aðeins fleiri gestir en síðasta sumar.

Jólakort
Þetta eru myndirnar á
nýju jólakortunum

Jólakort
Og hér eru eldri jólakortin

Núna fyrir jólin gaf Fuglasafnið út 4 ný jólakort og eru þau seld til styrktar safninu. Nú er hægt að kaupa 8 mismunandi kort á 1.000 kr. Kortin eru til sölu í safninu og er hægt að panta þau í síma 464 4477. Þau er einnig hægt að fá í Jarðböðunum og Sel Hótel Mývatn

Jólasveinn

Jólasveinninn í
Dimmuborgum

Aðventudagskráin í sveitinni er mikil og metnaðarfull. Þar eru jólasveinarnir í Dimmuborgum í öndvegi og mikil skemmtun fyrir börn á öllum aldri. Svo eru tólneikar, skoðunarferðir og aðrar skemmtanir út um alla sveit. Svo er víða hægt að koma við og fá sér ljúffengt jólakakó eða kaffi og jólakökurnar og fleira með því.

Fuglaskoðunarleikurinn er alltaf vinsæll og er nú búið að draga út alla vinninga. Það virðist þó alltaf vera vinsælla að fá bæklinginn til að tengja saman mynd og nafn á fuglunum frekar en að skila afrifu og taka þátt í verðlaunaleiknum.

Við tókum í notkun fyrsta hluta margmiðlunarefnisins í safninu nú í haust. Þetta er stórt og mikið verkefni og erum við aðeins búinn með fyrsta fjórðunginn. Það er Gagarín sem framleiðir efnið og hafa Fuglaverndunarfélagið með Jóhann Óla í fararbroddi og Náttúrustofa Norðausturlands stutt verkefnið. Þessi fyrsti hluti tekur yfir flestar endurnar og fuglaskoðun á svæðinu ásamt kynningu á safninu og tilurð þess. Efnið hefur vakið mikla athygli og eru gestir mjög ánægðir með að geta náð sér í aukin fróðleik á þennan hátt.

 

Ringed Necked duck
Ring-Necked Duck, Anthya collaris, Hringönd

27. ágúst 2010. Fuglaáhugamaður að nafni Jean Broadhvest kom í safnið hjá okkur og sagðist hafa séð Hringönd á Neslandavíkinni, rétt fyrir framan safnið. Hann fór svo með starfsmanni safnsins og sýndi honum fuglinn. Þetta er karlfugl sem er innan um skúfendurnar. Hingönd hefur sést áður en er frekar sjaldgæfur flækingur að sögn Þorkells Lindbergs hjá Náttúrustofu Norðausturlands. Hringönd er kafönd og er Amerísk andartegund.

Það er greinilega farið að hausta hjá fuglum og mönnum. Fuglarnir farnir að hópa sig saman fyrir farflugið til vetrarstöðvana og mennirnir búnir með fríin sín og farnir til sinnar vinnu. Gestum í safnið er að fækka núna þessa dagana. En það er tilvalið fyrir alla sem eru á ferðinni að koma við hjá okkur og njóta safnsins, fá sér svo gott kaffi með nýbakaðri vöfflu eða hverabakað rúgbrauð með reyktum silungi.

 

16. ágúst 2010. Verð nú að byrja á því að afsaka hvað er langt ég skrifaði eitthvað hér inn á síðuna. Það hefur verið mikið að gera og síðuritari staddur að stórum hluta ársins á Grænlandi.

En það hefur mikið gerst í sumar. Aðskóknin fór rólega af stað en jókst eftir heimsmeistaramót í fótbolta og hefur verið mjög góð síðari hluta sumars.

Fuglalíf hefur verið með beta móti fyrir framan safnið, fjöldi andategunda og mikið af álft. Varp tókst yfirleitt vel og er mikið af ungum á vatninu. Þó er eitt flórgoðapar eitthvað seint því það liggur á eggjum núna á dyngju sem sést vel frá safninu.

Fuglaskoðunarleikurinn er alltaf vinsæll eða allavega bæklingurinn. Fólki finnst gott að fá eitthvað í hendurnar sem tengir saman fugl og nafn og margir tíma ekki að skilja afrifuna eftir til að taka þátt í leiknum og vilja eiga bæklinginn heilan. Þó erum við búin að draga úr nokkur nöfn og senda viðkomandi sín verðlaun, sjá fuglaskoðunarsíðu.

Margmiðlunarefni fyrir safnið hefur verið í vinnslu í sumar og er alveg að ljúka. Þetta er stórt verkefni og erum við aðeins að klára 1 hlutann af 4 en heildarkostnaður við verkið er um 20 milljónir króna. Vonum að við getum fjármagnað afganginn sem fyrst því þetta er mjög öflugt fræðslu og kynningarefni fyrir safnið. Hluti að efninu verður sendur á Bird Fair sem er stærsta fuglaskoðunarráðstefna í heiminum.

Aðalfundur í Fuglasafni Sigurgeirs var haldinn fyrir skömmu. Þar var sama stjórn endurkjörin til að stýra safninu næsta árið. Ársskýrsla safnsins fyrir árið 2009 er kominn á vefinn og hægt að kynna sér hana hér. Þar kom einnig fram að það er 2 milljóna króna tap á rekstrinum á síðasta ári og því þurfum við að auka tekjurnar eins og hægt er. Þetta er nú samt ásættanleg niðurstaða þar sem þetta er fyrsta heila árið í rekstri og í upphafi ætluðum við okkur 5 ár til aðkoma rekstrinum í það horf að safnið geti rekið sig hjálparlaust.

Við viljum þakka þeim sem sendu okkur kveðjur í hvatningarátaki tileiknað Frú Vigdísi Finnbogadóttur. Átakið felst í því að almenningur sendir kveðjur til þeirra sem það telur vera til fyrirmyndar. Það er mikið hrós og hvatning um leið að fá svona kveðjur frá ókunnu fólki.

Hann Bjarni Hafþór Helgason kom og færði okkur viðtal sem hann átti við Geira þann 18. janúar 1996. Það var reglulega gaman að sjá Geira þarna og lýsa draumum sínum um safn ofl. Hér má sjá þetta viðtal en það þarf góða tengingu til að það virki vel. Takk fyrir Bjarni Hafþór og Stöð 2.

Þó að það sé af mörgu að taka þá læt ég þetta duga að sinni og vona að það komi örari fréttir hér inn á síðuna.

 

Fuglaskoðunarhús við Raufarhól .Fuglaskoðunarhús við Raufarhól
Fuglaskoðunarhús við Raufarhól

Grágæs .Hávella
Grágæsir og Hávella

27. apríl 2010. Fór í mjög snögga fuglaskoðunarferð og þeir fuglar sem ég sá voru Álft, Grágæs, Húsönd, Flórgoði, Rauðhöfði, Skúfönd, Hettumáfur og Hávella. Fuglalífið er komið á fullt en það er þó nokkur ís á vatninu ennþá en hann verður fljótur að fara þegar hlýnar.

Í gær settum við niður annað fuglaskoðunarhús. Það var sett niður austan við Raufarhólinn en það er hóll norðan við bæinn Vindbelg. Krsitján Steingrímsson og Stefán Gunnarsson hjálpuðu okkur við að koma húsinu á sinn stað og þökkum við þeim kærlega fyrir aðstoðina. Svo þökkum við einnig Jóni í Belg, Valgeiri Guðmundssyni og Steina á Strönd fyrir að leyfa okkur að setja húsið niður þarna. Þetta er annað húsið sem við getum boðið fuglaskoðurum og ljósmyndurum en hitt er inni á Neslandavíkinni.

Í dag var svo stjórnarfundur í fuglaklasanum þar sem er verið að leggja á ráðin um fuglatengda ferðaþjónustu og markaðssetningu á fuglastígnum á Norðausturlandi. Það er af nógu að taka og verður nóg að gera á næstunni.

 

24. apríl 2010. Nú höfum við loksins uppfyllt allar kröfur safnasjóðs og erum orðin styrkhæf þar. Það er upphefð fyrir safnið að vera viðurkennt á þessum vetvangi og svo skemmir það alls ekki að við fáum 1.000.000 kr í rekstrarstyrk í ár.

Nú eru fuglarnir að koma og mikið líf í gangi. Álftin er farin að sjást á víkinni hjá safninu. Svo sást brandönd hér í sveitinni og svo miklu fleiri fuglar. Endilega látið okkur vita um þá fugla sem þið sjáið svo við getum skráð það hjá okkur.

Vaxtarsamningur Norð Austurlands styrkti margmiðlunarverkefni safnsins svo vonandi getum við farið enn lengra með það en við ætluðum í upphafi.

Það eru alltaf einhverjir á ferðinni sem koma við í safninu og njóta þess sem við höfum upp á að bjóða.

 

Sigfús Jóhannesson og Finnur Baldursson
Finnur og Sigfús

10. apríl 2010. Finnur Baldursson kom við hjá okkur í dag og var að koma af fundi kiwanismanna á svæðinu. Á þessum fundi afhenti Sigfús Jóhannesson, svæðisstjóri Óðinssvæðis og félagi í Kiwanisklúbbnum Grími í Grímsey, honum gjafabréf. Á gjafabréfinu stendur:

Fuglasafn Sigurgeirs. Okkur Kiwanisfélögum í Grími, Grímsey, er sönn ánægja að veita fuglasafninu í Mývatnssveit peningagjöf að upphæð 100.000 kr. Vonum við að þessir peningar nýtist vel til að gera glæsilegt safn enn betra. Kveðjur, Kiwanisfélagar Grími, Grímsey.

Við þökkum kærlega fyrir góða gjöf og fögur orð í okkar garð. Gjöfin mun nýtast vel til að gera safnið enn betra.

 

16. mars 2010. Í dag skrifaði Ólöf Ýrr, fyrir hönd fuglasafnsins, undir samning við Gagarín um að gera margmiðlunarefni fyrir fuglasafnið. Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni og mun kosta um 20 milljónir þegar allt er komið. Til að geta komið verkinu af stað (því við eigum engar 20 millur) þá höfum við skipt því niður í fjóra áfanga. Með hjálp velviljaðra aðila höfum við náð að fjármagna fyrsta áfangan en svo þurfum við góðan stuðning til að klára það sem upp á vantar.
Margmiðlunarefnið á að taka til allra fugla á Íslandi og þar á að vera hægt að finna fræðslu um fuglana. Í fyrsta áfanganum verður lögð áhersla á 15 vatnafugla í Mývatnssveit og fálkann og einnig verður fjallað um fuglaskoðun. Þessum áfanga á að ljúka um mitt sumar. Efnið verður svo hægt að skoða á skjá í safninu og kanski víðar og síðar meir á heimasíðu safnsins.
Það að geta boðið þessa fræðslu lyftir safninu á enn hærri stall þar sem ekki er einungis hægt að skoða fuglana heldur líka að nálgast upplýsingar um þá á skemmtilegan og heillandi hátt.
Það er Gagarín sem framleiðir efnið og Jóhann Óli fuglafræðingur og ljósmyndari sér um gerð hadrits og ljósmynda.

 

2. mars 2010. Haldinn var stofnfundur félagsins Fuglastígur á Norðausturlandi í Ásbyrgi.  Tilgangur félagsins er að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja og einstaklinga á Norðausturlandi um uppbyggingu fuglaskoðunar á svæðinu og ferðaþjónustu henni tengdri.  
Fyrsta stjórn fuglaklasans
Fyrsta stjórn klasans

Takmark félagsins er að efla ímynd Norðausturlands sem eftirsóknarverðs fuglaskoðunarsvæðis, með því að þróa og bjóða upp á þjónustu fyrir fuglaskoðara sem byggir á því mikla og fjölbreytta fuglalífi sem er að finna á svæðinu.

Stofnfundurinn var haldinn í Gljúfrastofu og hann sóttu um 30 manns víðs vegar að svæðinu, allt frá Mývatnssveit austan af Langanesi.  Segja má að félagið sé formlegt framhald á verkefni sama heitis sem unnið hefur verið að á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands, Félag fuglaáhugamanna í Þingeyjarsýslum og fleiri aðila á undanförnum árum.

Á fundinum fór verkefnisstjóri AÞ stuttlega yfir fjölmörg verkefni Fuglastígs og Sólveig Sigurgeirsdóttir kynnti þjónustu sem veitt er hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð m.a. til klasaverkefna. Þá tóku við almennar umræður þar sem m.a. voru kynntar ýmsar nýjar hugmyndir og spennandi verkefni sem aðilar að Fuglastígnum eru að vinna að. Samþykktir fyrir félagið voru afgreiddar og síðan kosin stjórn.  Fyrstu stjórn félagsins skipa Þorkell Lindberg Þórarinsson frá Náttúrustofu Norðausturlands, Mirjam Blekkenhorst frá Farfuglaheimilinu á Ytra Lóni á Langanesi, Pétur Bjarni Gíslason frá Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit, Hermann Bárðarson verkefnisstjóri Umhvefisskólans og Kolbrún Úlfsdóttir frá Gistiþjónustunni Rauðuskriðu. Varamenn í stjórn eru Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, Ásdís Erla Jóhannesdóttir frá Sel-Hótel Mývatn og Oddur Örvar Magnússon sem vinnur að uppbyggingu gistiaðstöðu í Flatey.

 

19. febrúar 2010.Nú er komin nýr flipi á síðuna sem vísar á fuglaskoðunarsíðu. Þar verða helstu upplýsingar um fuglaskoðun á svæðinu. Þar undir er einnig loggsíða sem ég ætla að reyna halda lifandi en það get ég ekki nema með ykkar hjálp. Látið okkur í safninu vita um þá fugla sem þið sjáið á svæðinu og við setjum það inn á loggsíðuna. Þá safnast mikilvægar upplýsingar um fuglana á svæðinu og svo er fróðlegt fyrir áhugasama að kíkja inn á síðuna og sjá hvaða fugla er möguleiki að sjá.

 

18. febrúar 2010. Fór í snögga ferð hringinn í kringum vatnið til að sjá hvaða fuglar væru sýnilegir. Mest sá ég af húsönd en svo voru stokkönd, gulönd og álftir á vatninu. Snjótittlingar voru víða í landinu. Þó dagurinn sé stuttur og byrtan getur verið erfið til myndatöku er samt gaman að fara og sjá fuglana. Tók nokkrar myndir til að sýna eitthvað líf.

Húsönd Húsönd Stokkönd
Gulönd Gulönd

16. febrúar 2010. Nú er aðeins liðið á nýtt ár og vert að lýta aðeins til baka og sjá hvað hefur gerst.

Safninu hefur verið mjög vel tekið, langt umfram væntingar, og gestir verið ósparir á að hrósa okkru fyrir vel uppsett og skemmtilegt safn. Við vourm búin að áætla að 6.000 gestir myndu koma í safnið árið 2009 en þegar upp er staðið eru það um 11.500 gestir, þar af um 8.000 íslendingar. Það komu gestir frá 46 þjóðlöndum. Flestir komu frá Þýskalandi, 615 gestir, næst frá Danmörku, 486 gestir, Frakklandi 363 gestir, Hollandi 273 og Englandi 210 gestir. Það eru langflestir að koma í kringum mánaðarmótin júlí-ágúst, sjá línurit.

Íslenskur hani
Íslenskur hani

Það er um 2 milljóna króna tap á rekstrinum á síðasta ári sem sýnir að við þurfum að gera enn betur svo að safnið nái að standa sjálft og óstutt rekstrarlega séð. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir styrktu okkur það vel á árinu að við gátum greitt þetta tap og þær framkvæmdir sem við fórum í. Stærstu framkvæmdirnar voru að leggja klæðningu á vegin að safninu og bílastæðin. Kláruðum að koma einu fuglaskoðunarhúsi fyrir og búið að smíða 2 önnur og það næsta í smíðum. Það er búið að fá leyfi hjá Umhverfisstofnun fyrir þessum húsum en það er verið að vinna í leyfismálum hjá landeigendum.

Það kom okkur á óvært hvað bátaskýlið var vinsælt og varð mikið umtal um það þó sýningin sé ekki tilbúin ennþá. Það er verið að vinna í henni og mun Axel Hallkell sjá um endanlega uppsetningu og stefnum við á að klára þetta verk fyrir vorið. Fólk var mjög forvitið um kafarann og þótti skemmtilegt að heyra sögur af Jóni í Syðri Neslöndum og bátnum hans. Einnig vöktu eggin athygli og hvernig Mývetningar notuðu vatnið sér til framfærslu og samgangna.

Fuglaskoðunarleikurinn vakti mikla athygli og stefnum við á að hann verði ennþá veglegri á næsta ári. Það tóku samt ekki allir þátt í leiknum sem keyptu bæklinginn því þeim leist svo vel á hann og þar var hægt að tengja saman mynd af fuglinum og nafn. Það sýnir okkur að við erum að ná árangri því ætlunin með þessum leik var að efla áhuga almennings á fuglaskoðun.


Kolíbrifugl

Í sumar hringdi í okkur maður úr Reykjavík og spurði hvort við ættum kólíbrífugl, sem eru minnstu fuglar í heimi. Þegar hann heyrði að svo væri ekki þá bauðst hann til að gefa okkur einn slíkan. Hann fannst dauður í ræsi eftir óveður í Arisona, USA, um áramótin 1989-90. Við Jóhann S. Walderhaug (gefandi fuglsins) mæltum okkur mót á flugvellinum í Reykjavík og þar færði hann okkur fuglinn að gjöf. Þessi litskrúðugi fugl á eftir að sóma sér vel í safninu í framtíðinni.

 

Fálki
Fálki

Fleiri gjafir fengum við en Árni Vilhjálmsson frá Húsavík færði safninu fálka að gjöf. Það er verið að smíða kassa utan um fálkan og svo verður hann settur upp í upplýsingamiðstöðinni í Mývatnssveit, gestum og gangandi til ánægju og yndisauka.

Núna á afmælisdaginn hans Geira kom fólkið úr Baldursheimi 1 og færði safninu Íslenskan hana að gjöf. Þetta er stórglæsilegur og reisulegur fugl. Það er gaman að geta sýnt Íslensku hænuna í safninu og á örugglega eftir að vekja eftirtekt.

Aðstendur Fuglasafns Sigurgeirs vilja þakka þessum aðilum fyrir þeirra framlag til að gera safnið ennþá áhugaverðara. Einnig þökkum við öllum þeim sem studdu okkur fjárhagslega á síðasta ári bæði beint og með því að kaupa minningarkortin.

Undir linknum eldri fréttir hér í dálknum vinstra megin er búið að setja allar eldri fréttirnar.

Til baka